,

Vatnsleysanleg vítamín

Munurinn á fitu- og vatnsleysanlegum vítamínum byggir helst á leysanleika vítamína , hvernig líkaminn frásogar vítamínin, flutning þeirra innan líkamans og geymslu. Vatnsleysanleg vítamín frásogast vel í þörmum. Þau varðveitast ekki í líkamanum og verður því að neyta þeirra oftar heldur en fituleysanlegu vítamínanna. Umframmagn af vatnsleysanlegum vítamínum losar líkaminn sig við með þvagi og eru því stórir skammtar almennt ekki skaðlegir, þó svo deila megi um nauðsyn þeirra.

Vatnsleysanleg vítamín er að finna í ávöxtum, grænmeti og korntegundum. Vatnsleysanleg vítamín eru viðkvæmari heldur en fituleysanleg og geta þau tapast við mikla suðu, hitun og við það að komast í snertingu við súrefni. Best er að gufusjóða eða grilla matvæli sem innihalda mikið af vatnsleysanlegum vítamínum til þess að varðveita vítamínin sem best.