,

K vítamín

K-vítamín er mikilvægt fyrir blóðstorknun. Öllum nýburum er gefin K-vítamínsprauta til að fullnægja þörf þeirra tímabundið eða þar til þeirra eigin þarmaflóra verður tilbúin sem sér um K-vítamínframleiðsluna. Skortur á K- vítamíni er mjög sjaldgæfur. 

Uppspretta: K1 vítamín (fýtómenadíón) er í grænum laufum, s.s. spínati, tómötum og jurtaolíum. K2 vítamín (menakínón) verður til fyrir tilstilli örvera í meltingarveginum (þarmaflóra) en finnst einnig í lifur, kjöti, eggjarauðu og mjólkurvörum. 

K-vítamín skortur:  Einkenni K-vítamínskorts eru aukin tilhneiging til blæðinga, t.d. blæðing frá meltingarvegi og marblettir. 

Skortur er sjaldgæfur en kemur helst fram ef viðkomandi hefur verið með langvarandi niðurgang eða neytt hægðalosandi lyfja í lengri tíma, neytir einhæfrar fæðu eða við langvarandi sýklalyfjameðferð. Helst er þó hætta á K-vítamínskorti hjá fyrirburum.

Aukaverkanir: Sum afbrigði K-vítamíns geta valdið ertingu í húð og öndunarfærum. Ofnæmisviðbrögð sem eru útbrot og kláði hafa komið fram hjá þeim sem hafa neytt stórra skammta af K-vítamíni.

Ekki eru til ráðlagðir dagsskammtar fyrir K-vítamín.