,

Joð

(Iodine)

Joðskortur er vandamál í mörgum löndum heimsins og hefur til að mynda áhrif á fósturþroska á meðgöngu. Eitt helsta sýnilega einkenni joðskorts er stækkun skjaldkirtils (goitre), sem sést á hálsinum og alvarlegur joðskortur hjá börnum getur valdið dvergvexti og skertum heilaþroska (cretinism).

Helsta hlutverk joðs er að taka þátt í myndun skjalkirtilshormónsins týroxíns sem m.a. stjórnar orkunýtingu líkamans. Joð er til staðar í jarðvegi í mismunandi magni og til að koma í veg fyrir skort hafa stjórnvöld í mörgum löndum brugðið á það ráð að joðbæta matarsalt. 

Uppspretta:  Joð er í ýmsu sjávarfangi eins og fiski, skelfisk og þara. Einnig er joð að finna í mjólkurvörum og eggjum ef fóður dýranna inniheldur joð. Þar sem jarðvegur er joðríkur, innihalda kornvörur meira joð en almennt gerist. 

Joðskortur: Joðskortur veldur röskun á starfsemi skjaldkirtils.
 
Joð ofneysla: Langvarandi ofneysla getur valdið joðeitrun og skaðað skjaldkirtils starfsemina sem getur m.a. leitt til þess að skjaldkirtillinn stækkar (sama einkenni og í skorti).

Aukaverkanir: Við of stóra skammta af joði geta komið fram útbrot, stíflað nef,  höfuðverkur og munnvatnskirtlar bólgnað. Þetta getur til dæmis gerst við neyslu á þaratöflum sem geta innihaldið stóra skammta af joði. Efri mörk neyslu eru sett við 600 µg á dag.

Frábendingar: Sjúklingar í lyfjameðferð við skjaldkirtilstruflunum ættu ekki að taka joð aukalega.

Ráðlagðir dagskammtar* á Íslandi: 

Börn 6-11 mán 50 µg 
Börn 12-23 mán 70 µg 
Börn 2-5 ára 90 µg 
Börn 6-9 ára 120 µg  
Karlar ≥10 ára 150 µg 
Konur ≥ 10 ára 150 µg 
Konur á meðgöngu 175 µg
Konur með barn á brjósti 200 µg 

* Ráðlagðir dagskammtar (RDS) er það magn nauðsynlegra vítamína og steinefna sem talið er fullnægja þörfum alls þorra heilbrigðs fólks. Þarfir fólks fyrir næringarefni eru mjög breytilegar og því geta RDS ekki alltaf sagt  til um einstaklingsbundnar þarfir.