,

Fólinsýra

(Fólínsýra, fólat) 

Fólat, sem er náttúrulegt form vítamínsins í matvælum, á þátt í frumuskiptingu líkamans (nauðsynlegt fyrir efnaskipti kjarnsýra) og skortur sést því helst á líffærakerfum sem krefjast hraðrar endurnýjunar. Þar sem framleiðsla rauðu blóðkornanna krefst tíðrar frumuskiptingar getur skortur á fólati valdið fækkun rauðra blóðkorna sem veldur á endanum blóðleysi. Einnig á fólat þátt í því að umbreyta amínósýrunni hómósystein í methíónín og þannig hugsanlega lækkað áhættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.  

Þörfinni fyrir fólat á að vera hægt að fullnægja með því að borða fjölbreyttan mat og vel af ávöxtum og grænmeti. Fólinsýra hefur sömu virkni og fólat en er heitið yfir tilbúið form vítamínsins. Öllum konum, sem hyggja á barneignir, er ráðlagt að taka 400 µg fólínsýrutöflu á dag áður en meðganga hefst, auk þess að borða fólatríkan mat. Ef tekin eru fæðubótarefni, sem innihalda fólínsýru, er rétt að hafa í huga að taka ekki inn of mikið magn. Frávik frá þessu eru þegar skipuleggja á barneignir þar sem viðkomandi hefur áður fætt barn með skaða á miðtaugakerfi, er með flogaveiki, er með sykursýki – týpu 2 og/eða er með fjölskyldusögu þar sem skaði á miðtaugakerfi kemur við sögu. Í slíkum tilvikum er mælt með inntöku á 5 mg af fólinsýru áður en meðganga hefst samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis og er slíkt magn lyfseðilskylt.

Uppspretta: Fólat er að finna helst í  lifur (ekki ráðlagt fyrir barnshafandi), grænmeti, ávöxtum og baunum (legumes). Fólinsýra er tilbúið form sem finna má í fæðubótarefnum eða sem íblandað bætiefni í matvælum. Þannig er fólínsýru bætt í fæðutegundir eins og hrísgrjón, hveiti, brauð, morgunkorn og drykkjarvörur (kemur þá fram í innihaldslýsingu þessara matvara).

Skortur: Skortur á fólati á meðgöngu getur valdið skaða á miðtaugakerfi fóstursins svo sem klofnum hrygg, heilaleysi og vatnshöfuð. Skortur á fólati á meðgöngu hefur einnig verið tendur hegðunarvandamálum hjá barninu síðar meir. Fullorðnir geta upplifað blóðleysi (megaloblastic anemia) af völdum skorts. Önnur einkenni fólínsýruskorts eru niðurgangur, bólgin tunga, rugl, gleymska og aðrir þættir sem koma að hugarstarfseminni. Amínósýran hómósystein getur hækkað í blóði við litla fólatneyslu en hún er talin auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum

Eitrun: Stórir skammtar af fólinsýru geta komið í veg fyrir að B12-vítamínskortur uppgötvast, sem getur valdið taugaskemmdum.

Milliverkanir: Ef fólínsýra er notuð til að meðhöndla fólatskort af völdum flogaveikilyfja, getur sermisþéttni flogaveikilyfjanna lækkað og haft áhrif á stjórnun floga hjá sumum sjúklingum. Sýklalyfin klóramfeníkól og trimetóprim/sulfeametoxazol geta truflað fólatefnaskipti. Sulfasalazin getur dregið úr frásogi fólínsýru. Metótrexat, pyrimetamín, súlfónamíð og trímetórím eru fólínsýruhemlar sem hindra umbrot fólínsýru í tetrahýdrófólínsýru og auka þannig hættu á fólatskorti.
 
Ráðlagðir dagskammtar* fyrir B2-vítamín á Íslandi: 
Börn 6-11 mánaða 50 µg 
Börn 12-23 mánaða 60 µg 
Börn 2-5 ára 80 µg
Börn 6-9 ára 130 µg 
Karlar 10-13 ára 200 µg 
Karlar 14-74 ára 300 µg 
Karlar ≥75 ára 300 µg
Konur 10-13 ára 200 µg
Konur 14-17 ára 300 µg 
Konur 18-30 ára 400 µg
Konur 31-74 ára 300 µg
Konur ≥75 ára 300 µg
Konur á meðgöngu 500 µg
Konur með barn á brjósti 500 µg 

 

* Ráðlagðir dagskammtar (RDS) er það magn nauðsynlegra vítamína og steinefna sem talið er fullnægja þörfum alls þorra heilbrigðs fólks. Þarfir fólks fyrir næringarefni eru mjög breytilegar og því geta RDS ekki alltaf sagt  til um einstaklingsbundnar þarfir.