,

Fjölvítamín

Fjölvítamín innihalda helstu vítamín og steinefni sem líkaminn þarfnast fyrir eðlilega líkamsstarfsemi. Æskilegast er að magn einstakra vítamína og steinefna sé í samræmi við ráðlagða dagskammta sem eru gefnir út af embætti landlæknis. Undir venjulegum kringumstæðum, getum við uppfyllt þörf okkar fyrir vítamín og steinefni með fjölbreyttu og hollu mataræði. Það getur þó á einstaka tímabilum yfir ævina verið þörf fyrir auka vítamín og/eða steinefni s.s. meðal ungra barna, barnshafandi kvenna, kvenna með barn á brjósti, eldra fólks og meðal fólks sem borðar hitaeiningasnautt fæði. Einnig þarf að huga vel að vítamín- og steinefnaþörf einstaklinga sem eru með ofnæmi og/eða óþol og þeirra sem eru á ströngu grænmetisfæði. Á Íslandi eru einnig gefnar hærri ráðleggingar um neyslu D-vítamíns vegna þess hve litla möguleika Íslendingar hafa á að mynda D-vítmín gegnum húðina fyrir tilstilli sólarljóss.
 
Fituleysanleg vítamín: eru aðallega í feitum matvælum, eins og dýrafitu, jurtaolíu, mjólkurvörum, lifur og feitum fiski. Fituleysanlegu vítamínin eru A-vítamín (retínól, beta-karótín), D-vítamín (kalsíferól, E-vítamín (tókóferól) og K-vítamín. Af þeim er D-vítamín líklegast til að skorta í fæði vesturlandabúa vegna lítils magns í fæðu.

Vatnsleysanleg vítamín: varðveitast ekki í líkamanum og þarf því að neyta þeirra oftar en þeirra fituleysanlegu. Líkaminn losar sig við umframmagn flestra af vatnsleysanlegu vítamínunum með þvagi. Vatnsleysanleg vítamín eru að finna í ávöxtum, grænmeti og korni en þau geta eyðilagst við hitun og suðu.. Til að varðveita vítamínin úr fæðu er hægt að gufusjóða eða grilla matinn.

  

Vatnsleysanlegu vítamínin eru: þíamín (B1- vítamín), ríbóflavín (B2-vítamín), níasín (B3-vítamín), pýridoxín (B6-vítamín, kóbalamín (B12-vítamín, fólat (fólinsýra), C-vítamín (askorbínsýra), bíótín og pantóþensýra. 

 

Steinefni: eru í mismunandi magni í mismunandi fæðu, eins og kjöti, korni og kornvörum, fiski, mjólk og mjólkurvörum, grænmeti, (þurrkuðum) ávöxtum  og hnetum. Steinefni eru nauðsynleg: til að byggja upp sterk bein og tennur, til að stjórna vökvajafnvægi líkamans og til að umbreyta matnum sem við borðum í orku. Helstu steinefni eru: kalk, járn, magnesíum, fosfór, kalíum, natríum, kopar, króm, flúor, joð, selen og sink.

Almennt: Flestir eiga að geta fengið þau næringarefni sem þeir þarfnast með því að borða fjölbreytta fæðu. Þeir sem ákveða að taka inn fæðubótarefni þurfa að þekkja kosti og galla þessara efna því ekki er gott að taka of mikið af þeim.

 

Fituleysanleg vítamín geta safnast fyrir í líkamanum, einkum í lifur og fituvef ef borðað er of mikið af þeim (sjá viðmiðunargildi fyrir efri mörk á vef Embætti landlæknis). 

 

Skortur: er ekki algengur í hinum vestræna heimi. Skortseinkenni geta líst sér sem þreyta eða minnkað mótstöðuafl og ef skortur er viðvarandi er hætta á t.d. blóðskorti (vegna járn- og/eða B-vítamínskorts) eða skyrbjúgi sem er hættulegur sjúkdómur af völdum C-vítamínsskorts (sjá nánar um skortseinkenni í textunum um hvert vítamín og steinefni fyrir sig).

Fá Íslendingar nóg af vítamínum og steinefnum? 

Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar Embætti landlæknis á mataræði frá árinu 2010/11 var meðalneysla vítamína og steinefna yfirleitt um eða yfir ráðlögðum dagskammti (RDS), nema hvað D-vítamín varðar. Sérstaklega var D-vítamínneysla undir ráðlögðum dagskammti að meðaltali hjá þeim sem ekki taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa í töfluformi reglulega.  Einnig er neysla ungra kvenna á járni og fólati að meðaltali undir ráðleggingum.

 

Heimildir: