- Forsíða:
- C vítamín
C vítamín
(askorbínsýra)
C-vítamín kallast einnig askorbínsýra og oxað form askorbínsýrunnar (dehydroascorbic acid) hefur einnig virkni C-vítamíns. C-vítamín tekur þátt í myndun kollagens (collagen) sem er mikilvægt byggingarefni í brjóski, sinum, æðum, beinum, tönnum og húð. C-vítamín er líka andoxunarefni en næringarefni með andoxunarvirkni geta komið í veg fyrir eða hægt á frumuskemmdum í líkamanum. Þó eru vísbendingar um að sum andoxunarefni s.s. beta-karótín, ef tekin í stórum skömmtun, geti haft neikvæð áhrif á heilsuna. Vegna andoxunarhæfileika C-vítamíns er það gjarnan notað í matvælaframleiðslu og þá merkt sem aukefni.
Því hærri skammtar sem líkaminn fær af C-vítamíni, því meira skilst út með þvaginu.
Uppspretta: Sítrusávextir (appelsínur, mandarínur, sítrónur, kíví), tómatar, jarðarber, grænt kál, brokkolí (spergilkál), blómkál, mangó, ávaxtasafi og kartöflur.
C-vítamín skortur: Skortur á vítamíninu getur leitt til skyrbjúgs. Einkenni skyrbjúgs eru lausar tennur, tannholdsbólga, blóðleysi, þreyta, vöðva- og liðverkir, húðblæðingar og blæðingar í gómi, hægur gróandi sára og brothætt bein.
Eitrun: Við mikla neyslu á C-vítamíni er hætta á niðurgangi og óþægindum í meltingarvegi. Viðkæmum einstaklingum er einnig hættara við nýrnasteinum vegna aukinnar oxalate-myndunar.
Milliverkanir Helstu lyf sem geta leitt til C-vítamínskorts þegar þeirra er neytt eru: asetýlsalisýlsýra (aspirín,magnýl), súlfalyf, getnaðarvarnartöflur, indómetasín, parasetamól og barksterar, s.s. prednisólon.
Ráðlagðir dagskammtar* fyrir C-vítamín á Íslandi
Ungabörn 6-11 mán 20 mg
Börn 12-23 mán 25 mg
Börn 2-5 ára 30 mg
Börn 6-9 ára 40 mg
Börn 10-13 ára 50 mg
Karlar ≥ 14 ára 75 mg
Konur ≥ 14 ára 75mg
Konur á meðgöngu 85 mg
Konur með barn á brjósti 100 mg
*Ráðlagðir dagskammtar (RDS) er það magn nauðsynlegra vítamína og steinefna sem talið er fullnægja þörfum alls þorra heilbrigðs fólks. Þarfir fólks fyrir næringarefni eru mjög breytilegar og því geta RDS ekki alltaf sagt til um einstaklingsbundnar þarfir.