,

A vítamín

(Retínól, Beta-karótín)

A-vítamín hefur mörgum hlutverkum að gegna í líkamanum og er mikilvægt fyrir sjónina, eðlilega slímhúð, virkt ónæmiskerfi, vöxt, frumuskiptingu og frjósemi. 

A-vítamín er að finna í fæðunni á mismunandi formi. Í dýrafurðum er A-vítamín í formi retínóls í fituhluta fæðunnar. Í fæðutegundum úr jurtaríkinu er A-vítamín í formi karótenóíðs. Beta-karótín (β-karótín) er eitt margra karótenóíða, sem er til dæmis að finna í gulrætum.

Virkni A-vítamíns er misjöfn eftir því á hvaða formi það er og hefur bandaríska læknastofnunin (US Institute of Medicine, IoM) gefið út svokallað retínóljafngildi (retinol activity equivalents) sem eru eftirfarandi:

1 retínóljafngildi (RJ) = 1 míkrógramm (µg) retínól = 2 µg β-karótín á töfluformi = 12 µg β-karótín úr fæðunni.
Við meltingu fæðunnar er A-vítamín í hvaða formi sem er breytt í  retínól. Geymslustaður retínóls er að mestu leyti í lifrinni okkar. Möguleiki á eitrunareinkenni af völdum A-vítamíns úr dýraríkinu getur átt sér stað t.d. við neyslu á lifur en mikið magn A-vítamíns úr jurtaríkinu veldur einungis gulri húð.

Stórir skammtar af A-vítamíni geta verið varhugaverðir fyrir þungaðar konur og hefur neysla umfram 3000 μg á dag verið tengd auknum líkum á fósturgöllum. Eftir tíðahvörf eru konur í meiri áhættu að fá beinþynningu og verða fyrir beinbrotum og er þess vegna ráðlagt að takmarka neyslu sína við 1500 μg af A-vítamíni á dag.

Uppspretta: Lifur, smjör, smjörlíki, egg, feitur fiskur, lýsi, grænt grænmeti, s.s. spínat og rauðir og appelsínugulir ávextir og grænmeti.

A-vítamín skortur: Helsta einkenni skorts er náttblinda. Önnur einkenni eru augnþurrkur, húðskemmdir og sýkingar. 

A-vítamín eitrun: Eitrun er sjaldgæf hjá fullorðnum einstaklingum sem taka minna en 3000 µg á dag. Ef farið er yfir þessi mörk er hætta á lifrarskemmdum, minnkaðri beinþéttni og mögulega meiri áhættu á beinbrotum.

Aukaverkanir: A-vítamín getur haft neikvæð áhrif á upptöku og nýtingu á D-vítamíni. Vísbendingar eru um að neysla á  β-karótíni (sem er einnig andoxunarefni) á töfluformi geti haft neikvæð áhrif á heilsu fólks, sérstaklega reykingafólks.
Milliverkanir: Sýrubindandi lyf og lyf sem hindra frásog á fitu, laxerolía og paraffínolía geta dregið úr frásogi A-vítamíns í þörmum. 

Ráðlagðir dagskammtar* fyrir A-vítamín á Íslandi 
Börn 6-11 mán. 300 μg
Börn 12-23 mán 300 μg 
Börn 2-5 ára 350 μg 
Börn 6-9 ára 400 μg 
Börn (kk) 10-13 ára 600 μg
Karlar >13 ára 900 μg
Börn (kvk) 10-13 ára 600 μg 
Konur > 13 ára 700 μg 
Konur á meðgöngu 800 μg 
Konur með barn á brjósti 1100 μg 

*Ráðlagðir dagskammtar (RDS) er það magn nauðsynlegra vítamína og steinefna sem talið er fullnægja þörfum alls þorra heilbrigðs fólks. Þarfir fólks fyrir næringarefni eru mjög breytilegar og því geta RDS ekki alltaf sagt  til um einstaklingsbundnar þarfir.